2013

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 54/2013

20.2.2013

Úrskurður nr. 54/2013

                                                                    

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2013, miðvikudaginn 20. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 318/2012; beiðni A, kt. [...], dags. 16. október 2012, um endurupptöku á úrskurði yfirskattanefndar nr. 389/2012. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Sverrir Örn Björnsson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 16. október 2012, hefur umboðsmaður gjaldanda farið þess á leit við yfirskattanefnd að nefndin endurupptaki úrskurð sinn nr. 389/2012, sem kveðinn var upp 11. júní 2012, vegna kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda vegna meintra brota á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Með nefndum úrskurði var gjaldanda gert að sæta sekt að fjárhæð 7.100.000 kr. samkvæmt greindum lögum vegna vanrækslu á skilum staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts í rekstri X ehf. Í bréfi umboðsmanns gjaldanda, dags. 16. október 2012, sbr. einnig bréf umboðsmannsins, dags. 14. desember 2012, er þess krafist að úrskurður yfirskattanefndar verði „afturkallaður“ og málinu vísað aftur til skattrannsóknarstjóra ríkisins „til réttrar meðferðar“. Verður ráðið að gjaldandi óski eftir því að honum verði gefinn kostur á að ljúka málinu með sektarmeðferð hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins.

II.

Tildrög málsins eru þau að skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf hinn 13. janúar 2011 rannsókn á skattskilum X ehf. er beindist að skilum félagsins á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launamanna félagsins og virðisaukaskatti árið 2009. Vegna rannsóknarinnar var hinn 27. janúar 2011 tekin skýrsla af gjaldanda, A, svo og var sama dag tekin skýrsla af B. Með bréfi, dags. 1. mars 2011, sendi skattrannsóknarstjóri ríkisins skiptastjóra þrotabús X ehf., B, gjaldanda og tilnefndum verjanda þeirra skýrslu um rannsóknina sem þá lá fyrir, dags. 28. febrúar 2011, og gaf þeim kost á að tjá sig um efni hennar. Andmæli bárust frá tilnefndum verjanda gjaldanda og B þar sem bent var á að krafa X ehf. á hendur Z ehf., að fjárhæð 2.643.564 kr. teldist töpuð. Í framhaldi af þessu tók skattrannsóknarstjóri ríkisins saman nýja skýrslu um rannsóknina, dags. 12. maí 2011, sem var efnislega samhljóða hinni fyrri að öðru leyti en því að tekið var tillit til fram kominna andmæla varðandi tapaðar viðskiptakröfur.

Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 15. september 2011, gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins þá kröfu að gjaldanda yrði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með því að hann hefði sem fyrirsvarsmaður X ehf. vanrækt að standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launamanna félagsins greiðslutímabilin maí, júlí, ágúst, september, október, nóvember og desember 2009 að fjárhæð samtals 1.937.628 kr. Þá var gerð krafa um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda samkvæmt ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, vegna vangreidds virðisaukaskatts X ehf. uppgjörstímabilin mars-apríl, maí-júní, júlí-ágúst, september-október og nóvember–desember 2009 að fjárhæð samtals 5.419.541 kr. Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 16. september 2011, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins. Engar athugasemdir bárust frá gjaldanda.

Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 389/2012 var gjaldanda gerð sekt að fjárhæð 7.100.000 kr. á þeim grundvelli að hann hefði sem fyrirsvarsmaður X ehf. vanrækt með saknæmum hætti að standa skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda af launum starfsmanna félagsins greiðslutímabilin maí, júlí, ágúst, september, október, nóvember og desember 2009 að fjárhæð samtals 1.394.182 kr. og vanrækt skil á virðisaukaskatti að fjárhæð 4.419.859 kr. uppgjörstímabilin mars-apríl, maí-júní, júlí-ágúst, september-október og nóvember–desember 2009. Voru brot gjaldanda talin varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 2. og 3. gr. laga nr. 42/1995.

III.

Í beiðni umboðsmanns gjaldanda um endurupptöku málsins, dags. 16. október 2012, sbr. einnig bréf, dags. 14. desember 2012, er sem fyrr segir gerð sú krafa að yfirskattanefnd afturkalli úrskurð sinn nr. 389/2012 í máli gjaldanda og vísi málinu til meðferðar hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Í endurupptökubeiðni umboðsmanns gjaldanda er tekið fram að með bréfi, dags. 23. maí 2011, hafi gjaldanda og tilnefndum verjanda hans verið tilkynnt um fyrirhugaða ákvörðun skattrannsóknarstjóra ríkisins um refsimeðferð í máli gjaldanda. Hafi þá legið fyrir skýrsla skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 12. maí 2011, sem verjandi gjaldanda hafi gert athugasemdir við. Hafi verjandi gjaldanda talið að með tilliti til málsins og þeirra andmæla sem fram hefðu komið af hans hálfu að líklega yrði gjaldanda boðið að ljúka málinu hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins með stjórnvaldssekt, enda hafi umboðsmaður talið að brot gjaldanda varðaði ekki hærri sekt en 6.000.000 kr. Þannig hafi verjandi gjaldanda vænst þess að fá sektarboð frá skattrannsóknarstjóra ríkisins vegna málsins, en þess í stað hafi verjandi fengið afrit bréfs, dags. 29. júní 2012, þar sem tilkynnt hafi verið að refsimeðferð málsins hefði lokið með úrskurði yfirskattanefndar þann 11. júní 2012. Verjandi gjaldanda hefði ekki fengið neina tilkynningu frá skattrannsóknarstjóra ríkisins um rannsóknarlok og að málinu hefði verið vísað til yfirskattanefndar. Þá hefði verjandi gjaldanda ekki fengið neinar tilkynningar frá yfirskattanefnd auk þess sem gjaldandi telji sig ekki hafa fengið bréf frá yfirskattanefnd, dags. 16. september 2011, þar sem honum eigi að hafa verið gefinn frestur til andmæla. Sé jafnframt ljóst að þó svo honum hefði borist slíkt bréf hefði hann ekki vitað betur en að lögmaður hans myndi gæta hagsmuna hans í málinu.

Með bréfi til skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 27. ágúst 2012, hafi umboðsmaður gjaldanda gert athugasemdir við meðferð málsins hjá embættinu. Hafi erindinu verið svarað af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins með bréfi, dags. 3. október 2012, þar sem fram hafi komið að ákveðin mistök hefðu átt sér stað af hálfu embættisins og væri stjórnsýslumeðferð embættisins á máli gjaldanda því gölluð. Telur umboðsmaður gjaldanda að forsendur hafi verið fyrir því að bjóða gjaldanda að ljúka refsimeðferð málsins með því að gangast undir sekt hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins. Hins vegar hafi mistök skattrannsóknarstjóra ríkisins við útreikning sektarfjárhæðar leitt til þess að ætluð sektarfjárhæð hafi verið yfir heimiluðu hámarki. Hafi embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins beðist velvirðingar á þessum mistökum. Þá hafi umboðsmanni gjaldanda ekki verið tilkynnt um þá ákvörðun skattrannsóknarstjóra ríkisins að vísa málinu til yfirskattanefndar. Hafi umboðsmaður gjaldanda því ekki haft tækifæri til að koma auga á mistökin og mótmæla þessari afgreiðslu málsins. Loks hafi umboðsmanni gjaldanda ekki verið tilkynnt um rannsóknarlok af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins og hafi hann ekki fengið nein bréf eða tilkynningar frá yfirskattanefnd við meðferð málsins fyrir nefndinni. Hafi umboðsmaður gjaldanda því ekki vitað að málið væri til meðferðar fyrir yfirskattanefnd og hafi hann því ekki getað gætt hagsmuna skjólstæðings síns fyrir nefndinni.

Með hliðsjón af framangreindu sé ljóst að málsmeðferð í máli gjaldanda hafi verið haldin meiriháttar göllum. Vegna mistaka hafi jafnræðis og meðalhófs ekki verið gætt með fullnægjandi hætti við þá ákvörðun að vísa málinu til yfirskattanefndar. Þar sem ekki hafi verið gætt ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sé þess krafist að úrskurður yfirskattanefndar verði afturkallaður og málinu vísað aftur til skattrannsóknarstjóra ríkisins.

IV.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 30. október 2012, var þess óskað að skattrannsóknarstjóri ríkisins léti í ljós afstöðu sína til endurupptökubeiðni gjaldanda.

Í svarbréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 13. nóvember 2012, kemur fram að embættið hafi með bréfi, dags. 23. maí 2011, tilkynnt gjaldanda um rannsóknarlok og um fyrirhugaða ákvörðunartöku um refsimeðferð. Afrit þessa bréfs hafi verið sent umboðsmanni gjaldanda, en ranglega komi fram í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins til umboðsmannsins, dags. 3. október 2012, að þessa hafi ekki verið gætt. Engar athugasemdir hafi borist vegna þessa bréfs skattrannsóknarstjóra ríkisins. Hinn 15. september 2011 hafi skattrannsóknarstjóri ríkisins tekið þá ákvörðun að vísa málinu til sektarmeðferðar fyrir yfirskattanefnd og hafi sú ákvörðun verið tilkynnt gjaldanda með bréfi þann dag. Tilkynning um þetta hafi ekki verið send umboðsmanni gjaldanda. Gjaldandi hafi ekki mælt gegn því að málið væri til sektarmeðferðar hjá yfirskattanefnd og þá hafi umboðsmaður gjaldanda engar athugasemdir gert við afgreiðslu málsins eða haft önnur afskipti af því fyrr en eftir að úrskurður yfirskattanefndar í máli gjaldanda féll. Að öðru leyti en að framan greini telji skattrannsóknarstjóri ríkisins sig ekki hafa forsendur til að taka afstöðu til erindis gjaldanda.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 23. nóvember 2012, var gjaldanda sent afrit af bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 13. nóvember 2012, og honum gefinn kostur á að leggja fram athugasemdir af því tilefni.

Með bréfi, dags. 14. desember 2012, hefur umboðsmaður gjaldanda áréttað áður fram komin rök fyrir endurupptöku á úrskurði yfirskattanefndar nr. 389/2012. Þá er tekið fram að ekki sé hægt að fallast á að það séu eðlilegir starfshættir, eftir að lögmaður hafi gefið sig fram við stjórnvald sem lögmaður aðila og síðar fengið tilnefningu sem verjandi hans, að lögmaðurinn hætti að fá upplýsingar um málið af því að rannsókn ljúki, þegar jafnframt liggi fyrir að eftir sé að ákvarða refsimeðferð í málinu. Auk þess sé rétt að benda á að skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi sent lögmanninum afrit af tilkynningu sinni, dags. 29. júní 2012, um málsmeðferðarlok hjá embættinu. Sé því ljóst að embættið hafi talið sér skylt að senda áfram afrit af tilkynningum til lögmannsins, þrátt fyrir að rannsókn hafi lokið formlega 23. maí 2011. Meðfylgjandi bréfi umboðsmanns gjaldanda eru tölvupóstar milli gjaldanda og umboðsmanns hans frá maí og júní 2011 þar sem fram kemur að ekki sé ætlunin að mótmæla sérstaklega fyrirhugaðri refsimeðferð heldur reyna að ljúka málinu með sekt hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins.  

V.

Mál þetta varðar beiðni samkvæmt bréfi umboðsmanns gjaldanda, dags. 16. október 2012, sbr. einnig bréf umboðsmanns gjaldanda frá 14. desember 2012, um endurupptöku á úrskurði yfirskattanefndar nr. 389/2012, sem kveðinn var upp hinn 11. júní 2012 vegna kröfu skattrannsóknarstjóra um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda vegna meintra brota á skattalögum. Með úrskurði þessum var gjaldanda gerð sekt á þeim grundvelli að hann hefði sem fyrirsvarsmaður X ehf. vanrækt með saknæmum hætti að standa skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda af launum starfsmanna félagsins greiðslutímabilin maí, júlí, ágúst, september, október, nóvember og desember 2009 og virðisaukaskatti uppgjörstímabilin mars-apríl, maí-júní, júlí-ágúst, september-október og nóvember–desember 2009. Voru brot gjaldanda talin varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995, og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

Af hálfu umboðsmanns gjaldanda er byggt á því að gallar hafi verið á meðferð málsins þannig að ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, hafi ekki verið gætt með fullnægjandi hætti. Er í þessu sambandi vísað til þess að skattrannsóknarstjóra ríkisins hafi orðið á þau mistök að tilkynna umboðsmanni gjaldanda, sem tilnefndur hafi verið verjandi gjaldanda við skattrannsókn embættisins, ekki um þá ákvörðun að vísa máli gjaldanda til sektarmeðferðar hjá yfirskattanefnd. Þar sem gjaldandi hafi treyst því að umboðsmaður gjaldanda myndi gæta hagsmuna hans við málsmeðferðina hafi þessi mistök orðið til þess að ákvörðun skattrannsóknarstjóra ríkisins hafi ekki verið mótmælt. Skilyrði hafi hins vegar verið fyrir því að ljúka málinu með sektargerð hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins og hafi gjaldandi og umboðsmaður hans vænst þeirra málaloka. Þá er vísað til þess í endurupptökubeiðni að yfirskattanefnd hafi ekki sent umboðsmanni gjaldanda tilkynningu um meðferð málsins hjá nefndinni og raunar telji gjaldandi sig ekki hafa fengið bréf yfirskattanefndar, dags. 16. september 2011, sem getið sé um í úrskurði nefndarinnar.

Samkvæmt 1. mgr. 31. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 1. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skulu sektir vegna brota á lögum þessum úrskurðaðar af yfirskattanefnd nema máli sé vísað til opinberrar rannsóknar og dómsmeðferðar. Skattrannsóknarstjóri ríkisins kemur fram af hálfu hins opinbera fyrir yfirskattanefnd í slíkum málum. Í 2. mgr. 31. gr. laga nr. 45/1987 og 2. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 2. og 4. gr. laga nr. 134/2005, er kveðið á um heimild skattrannsóknarstjóra ríkisins til að gefa skattaðila kost á að ljúka refsimeðferð máls með því að greiða sekt til ríkissjóðs, enda sé talið að brot sé skýlaust sannað, og verður máli þá hvorki vísað til rannsóknar lögreglu né sektarmeðferðar hjá yfirskattanefnd. Við ákvörðun sektar skal hafa hliðsjón af eðli og umfangi brota. Geta sektir numið frá 100.000 kr. til 6.000.000 kr. Kveðið er á um það í þessum lagaákvæðum að sektarákvörðun samkvæmt þeim skuli lokið innan sex mánaða frá því að rannsókn skattrannsóknarstjóra lauk.

Kveðið er á um refsimeðferð vegna brota á skattalögum í VI. kafla reglugerðar nr. 373/2001, um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna, með áorðnum breytingum. Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. reglugerðarinnar getur skattrannsóknarstjóri ríkisins af sjálfsdáðum ákveðið að hefja refsimeðferð með því að gefa skattaðila kost á að gangast undir sektarákvörðun skattrannsóknarstjóra, með því að vísa máli til sektarmeðferðar fyrir yfirskattanefnd eða með því að vísa máli til opinberrar rannsóknar og venjulegrar sakamálameðferðar. Í 37. gr. A reglugerðarinnar eru nánari ákvæði um skilyrði þess að refsimeðferð verði lokið með ákvörðun sektar skattrannsóknarstjóra ríkisins og um málsmeðferð í því sambandi. Þar kemur m.a. fram að telji skattrannsóknarstjóri ríkisins að fésekt skuli nema hærri fjárhæð en 6.000.000 kr. sé ekki unnt að ljúka refsimeðferð máls með þessum hætti, sbr. 3. mgr. 37. gr. A. Þá kemur fram í 10. mgr. 37. gr. A að sektarákvörðun skattrannsóknarstjóra ríkisins skuli lokið innan sex mánaða frá því að rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins lauk, en verði sektarákvörðun ekki lokið innan þess tíma sé ekki unnt að ljúka refsimeðferð máls með þeim hætti sem hér um ræðir.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins til umboðsmanns gjaldanda, dags. 3. október 2012, kemur fram að ekki verði betur séð en að í tilviki gjaldanda hafi verið forsendur til að bjóða honum að ljúka refsimeðferð í máli hans með því að gangast undir sekt hjá skattrannsóknarstjóra. Vegna mistaka við útreikning sektarfjárhæðar hafi sektarfjárhæð verið yfir heimiluðu hámarki og þar með farið út fyrir heimild skattrannsóknarstjóra. Þá er bent á það í bréfinu að skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi vísað máli gjaldanda til sektarmeðferðar hjá yfirskattanefndar innan fyrrgreinds sex mánaða frests og gjaldanda tilkynnt sú ákvörðun án þess að hann hafi mótmælt henni. Vegna athugasemda um það atriði að umboðsmanni gjaldanda hafi ekki verið send tilkynning um þá ákvörðun að vísa málinu til meðferðar fyrir yfirskattanefnd bendir skattrannsóknarstjóri ríkisins á að tilnefning verjanda falli niður við rannsóknarlok.

Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 23. maí 2011, var gjaldanda og tilnefndum verjanda hans við rannsókn málsins hjá skattrannsóknarstjóra tilkynnt um lok rannsóknarinnar og um fyrirhugaða ákvörðunartöku skattrannsóknarstjóra um refsimeðferð. Kom fram að refsimeðferð gæti falist í því að skattrannsóknarstjóri ríkisins gæfi skattaðila kost á sektargerð hjá skattrannsóknarstjóra, með því að vísa máli til sektarmeðferðar hjá yfirskattanefnd eða með því að vísa máli til opinberrar rannsóknar hjá ríkislögreglustjóra. Tekið var fram að teldi skattrannsóknarstjóri ríkisins málið þess eðlis að unnt væri að ljúka refsimeðferð með sektargerð hjá embættinu yrði gjaldanda gefinn kostur á því síðar með skriflegum hætti. Var gjaldanda veittur 30 daga frestur til að tjá sig um fyrirhugaða ákvörðun um refsimeðferð. Ekki voru gerðar athugasemdir af hálfu gjaldanda af þessu tilefni. Hins vegar bera framlögð gögn um tölvupóstsamskipti gjaldanda og umboðsmanns hans það með sér að aðilar hafi vænst þess að málinu lyki með sektargerð skattrannsóknarstjóra ríkisins. Er tekið fram í tölvupósti umboðsmanns gjaldanda 26. maí 2011 að gjaldandi mætti ásamt B eiga von á því að „fá bréf fljótlega þar sem ykkur verður boðið það“.

Til þess kom ekki að skattrannsóknarstjóri ríkisins gæfi gjaldanda kost á að ljúka málinu með greiðslu sektar samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 31. gr. laga nr. 45/1987 og 2. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, heldur vísaði hann máli gjaldanda til yfirskattanefndar til sektarmeðferðar hinn 15. september 2011. Var gjaldanda tilkynnt um þetta með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins þann dag. Umboðsmaður gjaldanda finnur að því að hann hafi sem tilnefndur verjandi gjaldanda við rannsókn málsins ekki fengið sent afrit af þessu bréfi. Af því tilefni skal tekið fram að ekki verður séð að skattrannsóknarstjóra ríkisins hafi borið nein skylda til þess að það yrði gert, enda verður að ganga út frá því að störfum tilnefndra verjenda skattaðila við skattrannsóknir hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins ljúki við rannsóknarlok hverju sinni, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 30. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, en rannsókn í tilviki kæranda lauk 23. maí 2011. Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 16. september 2011, var gjaldanda tilkynnt um kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins um ákvörðun skattsektar á hendur honum og honum gefinn kostur á að taka til varna af því tilefni. Bréf þetta var sent gjaldanda í ábyrgðarpósti og kemur fram í skrám Íslandspósts hf. að það var afhent honum 19. september 2011. Engar athugasemdir bárust yfirskattanefnd af hálfu gjaldanda.

Samkvæmt framansögðu gerði gjaldandi engar athugasemdir við það að skattrannsóknarstjóri ríkisins hefði vísað máli hans til sektarmeðferðar hjá yfirskattanefnd þótt ljóst sé að hann hafði væntingar um að málinu yrði lokið með sektargerð hjá skattrannsóknarstjóra. Til þess er að líta að ekki verður séð að gjaldandi hafi að fenginni tilkynningu um þessa ákvörðun skattrannsóknarstjóra ríkisins haft forsendur til að ætla að skilyrði hafi verið til þess að ljúka refsiþætti málsins með fyrrgreindum hætti. Eins og rakið er að framan kemur hið gagnstæða fram í bréfum skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 3. október 2012 og 13. nóvember 2012, þar sem upplýst er að embættinu hafi orðið á mistök við útreikning sektarfjárhæðar í máli gjaldanda og því hafi honum ekki verið gefinn kostur á umræddum málalokum. Í síðara bréfinu kemur fram að fjárhæð sektarboðs hefði orðið „rétt innan hámarkssektarheimildar skattrannsóknarstjóra“.

Lögbundinn frestur skattrannsóknarstjóra til ákvörðunar sektar samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 31. gr. laga nr. 45/1987 og 2. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988 er nú löngu liðinn. Þrátt fyrir óumdeild mistök skattrannsóknarstjóra ríkisins við meðferð máls gjaldanda, sem rakin eru að framan, þykja því ekki vera forsendur til þess að verða við kröfu gjaldanda um að vísa máli hans á nýjan leik til skattrannsóknarstjóra til meðferðar samkvæmt þessum lagaákvæðum. Á hinn bóginn þykja atvik málsins gefa tilefni til þess að taka ákvörðun sektarfjárhæðar á hendur gjaldanda til endurskoðunar með tilliti til upplýsinga skattrannsóknarstjóra ríkisins um niðurstöðu málsins hefði ekki þannig til atvikast sem raun varð á. Því er mál gjaldanda endurupptekið að því er varðar ákvörðun sektarfjárhæðar. Með vísan til þess sem fram er komið um inntak sektarboðs skattrannsóknarstjóra ríkisins, hefði það náð fram að ganga, og að virtum málsatvikum að öðru leyti þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 5.900.000 kr. til ríkissjóðs.

Úrskurðarorð:

Fallist er á endurupptöku á úrskurði yfirskattanefndar nr. 389/2012. Sekt gjaldanda, A, lækkar úr 7.100.000 kr. í 5.900.000 kr. 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum