2009

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 51/2009

1.4.2009

Úrskurður nr. 51/2009

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2009, miðvikudaginn 1. apríl, er tekið fyrir mál nr. 31/2009; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Sverrir Örn Björnsson og Valdimar Guðnason. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 26. janúar 2009, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2004 til og með 2008.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A er gefið að sök eftirfarandi:

Vangoldinn innheimtur virðisaukaskattur. Vanræksla á afhendingu virðisaukaskattsskýrslna á lögmæltum tíma.

A er gefið að sök að hafa vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á virðisaukaskatti sem hann innheimti í starfsemi sinni, sem fólst í vinnu við flísalagnir, vegna uppgjörstímabilanna janúar–febrúar til og með nóvember–desember rekstrarárið 2004, janúar–febrúar, maí–júní, júlí–ágúst og september–október rekstrarárið 2005, janúar–febrúar til og með júlí–ágúst og nóvember–desember rekstrarárið 2006, janúar–febrúar til og með nóvember–desember rekstrarárið 2007 og janúar–febrúar og mars–apríl rekstrarárið 2008. Þá er A gefið að sök að hafa vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs, á lögmæltum tíma, skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabilanna janúar–febrúar til og með nóvember–desember rekstrarárið 2007.

Vangoldinn innheimtur virðisaukaskattur til innheimtumanns ríkissjóðs vegna framangreindra uppgjörstímabila nemur samtals kr. 5.368.186. Fjárhæðin sundurliðast svo sem hér greinir:

Rekstrarár Uppgjörstímabil Vangoldinn virðisaukaskattur til innheimtumanns ríkissjóðs kr.
2004 janúar – febrúar 95.913
2004 mars – apríl 265.157
2004 maí – júní 93.120
2004 júlí – ágúst 137.119
2004 september – október 290.532
2004 nóvember – desember 313.391
Samtals kr.   1.195.223
2005 janúar – febrúar 449.816
2005 maí – júní 226.380
2005 júlí – ágúst 195.535
2005 september – október 211.573
Samtals kr.   1.083.304
2006 janúar – febrúar 47.407
2006 mars – apríl 129.279
2006 maí – júní 135.544
2006 júlí – ágúst 136.002
2006 nóvember - desember 309.793
Samtals kr.   758.025
2007 janúar – febrúar 171.986
2007 mars – apríl 262.067
2007 maí – júní 359.511
2007 júlí – ágúst 459.611
2007 september – október 411.675
2007 nóvember - desember 265.318
Samtals kr.   1.930.168
2008 janúar – febrúar 218.981
2008 mars – apríl 182.485
Samtals kr.   401.466
Samtals öll árin 5.368.186  

Er það mat skattrannsóknarstjóra ríkisins, byggt á gögnum málsins, að þetta hafi A gert á saknæman hátt, að því er frekast verður séð af ásetningi, eða í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi.

Telst þessi háttsemi A brjóta í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr., samanber aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. og 2. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Framanlýst háttsemi A varðar hann sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sektum í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 26. janúar 2009, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með ábyrgðarbréfi yfirskattanefndar, dags. 28. janúar 2009, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins á heimilisfang sem uppgefið var í kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins. Var bréfið endursent yfirskattanefnd með því að þess hefði ekki verið vitjað. Reynt var að koma fram birtingu fyrir gjaldanda eftir ákvæðum b-liðar 1. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, með bréfi yfirskattanefndar, dags. 5. mars 2009, en birting tókst ekki. 

III.

Sú regla kemur fram í 2. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, að skattrannsóknarstjóri ríkisins getur vísað máli til opinberrar rannsóknar af sjálfsdáðum, svo og eftir ósk sökunauts ef hann vill eigi hlíta því að mál verði afgreitt af yfirskattanefnd samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins. Ákvæði þetta ber að skilja svo að skattrannsóknarstjóri ríkisins geti ekki vísað máli til sektarmeðferðar fyrir yfirskattanefnd nema málið hafi áður verið borið undir gjaldanda og hann hafi gefið skattrannsóknarstjóra til kynna á sannanlegan hátt að hann mæli því ekki í gegn að málið hljóti sektarmeðferð fyrir yfirskattanefnd. Þar sem afstaða gjaldanda, A, til meðferðar málsins fyrir yfirskattanefnd liggur ekki fyrir eru ekki skilyrði til þess að fjalla um málið fyrir yfirskattanefnd og er málinu því vísað frá.

Þessi niðurstaða breytir engu um heimild skattrannsóknarstjóra ríkisins til þess að ákveða af sjálfsdáðum hvort efni séu til að vísa máli til opinberrar rannsóknar og almennrar sakamálameðferðar fyrir dómstólum.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá yfirskattanefnd.

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum