2009

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 327/2009

30.12.2009

 Úrskurður nr. 327/2009

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2009, miðvikudaginn 30. desember, er tekið fyrir mál nr. 267/2008; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Ragnheiður Snorradóttir og Valdimar Guðnason. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 7. nóvember 2008, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2004, 2005 og 2006.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A er gefið að sök eftirfarandi:

Vanræksla á skilum á virðisaukaskattsskýrslum. Vanframtalin skattskyld velta og útskattur. Mögulegur innskattur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, vanrækt að standa skattstjóranum í Reykjanesumdæmi skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi sinnar, vegna uppgjörstímabilanna janúar–febrúar rekstrarárið 2004 til og með nóvember–desember rekstrarárið 2006. Með framangreindri háttsemi vanframtaldi A skattskylda veltu og útskatt framangreind uppgjörstímabil. Samkvæmt niðurstöðu rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins nemur vanframtalin skattskyld velta samtals kr. 23.338.364 og vanframtalinn útskattur samtals kr. 5.717.901. Þá nemur mögulegur innskattur samtals kr. 216.696.

Sundurliðast vanframtalin skattskyld velta, útskattur og mögulegur innskattur, samkvæmt fyrirliggjandi gögnum svo sem hér greinir: 

 

Rekstrarár

 

Uppgjörstímabil

Vanframtalin skattskyld velta Vanframtalinn útskattur Mögulegur innskattur
2004 janúar–febrúar 1.586.363 388.658 516
2004 mars–apríl 1.069.752 262.090 5.350
2004 maí–júní 968.032 237.168 0
2004 júlí–ágúst 992.735 243.220 2.325
2004 september–október 1.119.432 274.261 55.203
2004 nóvember–desember 1.126.778 276.060 21.780
Samtals kr.   6.863.092 1.681.457 85.174

 

Rekstrarár

 

Uppgjörstímabil

Vanframtalin skattskyld velta Vanframtalinn útskattur Mögulegur innskattur
2005 janúar–febrúar 504.016 123.484 512
2005 mars–apríl 1.512.048 370.452 0
2005 maí–júní 1.008.032 246.968 0
2005 júlí–ágúst 1.008.032 246.968 0
2005 september–október 1.360.032 333.208 30.280
2005 nóvember–desember 2.764.068 677.197 52.438
Samtals kr.   8.156.228 1.998.277 83.230

 

 

Rekstrarár

 

Uppgjörstímabil

Vanframtalin skattskyld velta Vanframtalinn útskattur Mögulegur innskattur
2006 janúar–febrúar 1.068.032 261.668 0
2006 mars–apríl 1.103.032 270.243 0
2006 maí–júní 1.088.032 266.568 0
2006 júlí–ágúst 1.088.032 266.568 0
2006 september–október 1.488.032 364.568 0
2006 nóvember–desember 2.483.884 608.552 48.292
Samtals kr.   8.319.044 2.038.167 48.292
Samtals öll árin 23.338.364 5.717.901 216.696  

Sú háttsemi A sem hér hefur verið lýst brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 24. gr., sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt með áorðnum breytingum.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Við endurákvörðun á virðisaukaskatti vegna framangreindra rekstrarára hefur A verið gert að sæta álagi á vangreiddan virðisaukaskatt, kr. 207.121, er komi til frádráttar við ákvörðun sektarfjárhæðar.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 7. nóvember 2008, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 12. nóvember 2008, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hún vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hennar og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 2. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 7. nóvember 2008, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hún mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

2. Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf hinn 24. janúar 2008 rannsókn á bókhaldi og skattskilum gjaldanda vegna sjálfstæðrar starfsemi hennar rekstrarárin 2004, 2005 og 2006 og lauk rannsókninni með skýrslu, dags. 1. apríl 2008. Vegna rannsóknar málsins kom gjaldandi til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins hinn 7. febrúar 2008 og var rannsóknin byggð á upplýsingum sem þar komu fram, sölureikningum og bókhaldsgögnum gjaldanda og upplýsingakerfum ríkisskattstjóra. Með bréfi, dags. 7. mars 2008, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu um rannsóknina, dags. 6. mars 2008, og gaf henni kost á að tjá sig um efni hennar. Með bréfi, dags. 19. mars 2008, gerði skipaður verjandi gjaldanda grein fyrir aðstæðum gjaldanda og lagði fram með bréfi sínu gögn um veikindi sonar og móður gjaldanda. Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var litið svo á að greind andmæli vörðuðu ekki efni rannsóknarskýrslunnar og var lokaskýrsla skattrannsóknarstjóra efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 1. apríl 2008, var gerð grein fyrir rannsókn embættisins á bókhaldi og skattskilum gjaldanda. Fram kom að á rannsóknartímabilinu hefði gjaldandi starfað sjálfstætt við sölu auglýsinga, ljósmyndun og ráðgjöf í tengslum við auglýsingar. Í lokakafla skýrslunnar voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar dregnar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á bókhaldi og virðisaukaskattsskilum vegna rekstraráranna 2004, 2005 og 2006 eru:

·1   Virðisaukaskattsskýrslum hefur ekki verið skilað.

·2   Skattaðili hefur ekki fært bókhald.

·3   Skattskyld velta og útskattur eru vanframtalin.“

Samkvæmt tölulegum niðurstöðum skýrslunnar, sem gerð var grein fyrir í töflu, var vantalin skattskyld velta gjaldanda talin nema 6.863.092 kr. rekstrarárið 2004, 8.156.228 kr. rekstrarárið 2005 og 8.319.044 kr. rekstrarárið 2006 eða samtals 23.338.364 kr. öll árin og vantalinn útskattur samtals 5.717.901 kr. greind ár, en mögulegur innskattur væri 85.174 kr. rekstrarárið 2004, 83.230 kr. rekstrarárið 2005 og 48.292 kr. rekstrarárið 2006, þ.e. samtals 216.696 kr. öll árin.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 5. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 2. apríl 2008. Á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins og í framhaldi af bréfi til gjaldanda, dags. 26. maí 2008, sem gjaldandi svaraði ekki, tók ríkisskattstjóri virðisaukaskatt gjaldanda árin 2004, 2005 og 2006 til endurákvörðunar með úrskurði um endurákvörðun, dags. 30. júní 2008. Samkvæmt úrskurðinum var skattskyld velta gjaldanda ákvörðuð samtals 6.863.092 kr. uppgjörstímabilin janúar-febrúar til og með nóvember-desember 2004, 8.156.228 kr. uppgjörstímabilin janúar-febrúar til og með nóvember-desember 2005 og 8.319.044 kr. uppgjörstímabilin janúar-febrúar til og með nóvember-desember 2006 og kom fram í úrskurði ríkisskattstjóra að þær fjárhæðir væru í samræmi við niðurstöður skattrannsóknarstjóra ríkisins. Að teknu tilliti til innskatts, sem ríkisskattstjóri ákvarðaði í samræmi við niðurstöður skattrannsóknarstjóra, varð virðisaukaskattur til greiðslu 1.596.283 kr. árið 2004, 1.915.047 kr. árið 2005 og 1.989.875 kr. árið 2006 auk álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Gjaldandi nýtti sér ekki heimilaðar málskotsleiðir vegna þessa úrskurðar ríkisskattstjóra.

3. Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 1. apríl 2008, að gjaldandi hafi ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabila á árunum 2004, 2005 og 2006. Gjaldandi hafi ekki fært bókhald vegna sjálfstæðrar starfsemi sinnar, en fyrirliggjandi séu sölureikningar gjaldanda frá árunum 2004, 2005 og 2006. Eru niðurstöður skattrannsóknarstjóra ríkisins um fjárhæð skattskyldrar veltu gjaldanda árin 2004, 2005 og 2006 byggðar á umræddum sölureikningum gjaldanda. Um er að ræða 21 sölureikning vegna ársins 2004, samtals að fjárhæð 8.544.549 kr., 17 sölureikninga vegna ársins 2005, samtals að fjárhæð 10.209.505 kr., en þar af er einn sölureikningur án virðisaukaskatts, og 12 sölureikninga vegna ársins 2006, samtals að fjárhæð 10.357.211 kr., sem allir voru gefnir út af gjaldanda vegna seldrar vinnu á tímabilinu janúar 2004 til og með desember 2006. Með fyrrgreindu fráviki er virðisaukaskattur tilgreindur á öllum sölureikningum gjaldanda, samtals að fjárhæð 1.681.457 kr. árið 2004, 1.998.227 kr. árið 2005 og 2.038.167 kr. árið 2006.

Í kafla um rannsókn á innskatti gjaldanda kemur fram að samkvæmt gögnum, sem gjaldandi hafi afhent vegna rannsóknarinnar, nemi innskattur 85.174 kr. árið 2004, 83.230 kr. árið 2005 og 48.292 kr. árið 2006.

Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 7. febrúar 2008 kom fram af hálfu gjaldanda að hún hefði stundað sjálfstæða starfsemi sem fólgin hefði verið í sölu auglýsinga, ljósmyndun og ráðgjöf í tengslum við auglýsingar. Hún hefði ekki fært bókhald en hefði þó lagt saman reikningana. Aðspurð um ástæðu þess að virðisaukaskattskýrslum var ekki skilað til skattyfirvalda sagðist gjaldandi hafa forgangsraðað vitlaust vegna gjaldþrots sem hún hefði lent í. Hún hefði ákveðið að ganga frá öllum skuldum þar sem ættingjar væru í ábyrgðum, en auk þess hefði sonur hennar átt við veikindi að glíma á sama tíma, svo sem gjaldandi rakti nánar, og hefðu allar skuldir hans fallið á gjaldanda. Þá hefði gjaldandi orðið að annast móður sína í veikindum hennar. Þessar aðstæður hefðu orðið til þess að gjaldandi hefði ekki verið í andlegu ástandi til þess að horfast í augu við vanda sinn, en hins vegar hefði hún alltaf ætlað að gera skattyfirvöldum grein fyrir tekjunum og ganga frá þeim málum. Við skýrslutökuna voru ljósrit af sölureikningum gjaldanda árin 2004, 2005 og 2006 lögð fyrir hana og staðfesti gjaldandi að hún hefði gefið sölureikninga þessa út og fengið þá greidda. Fyrir gjaldanda er lögð fram samantekt yfir skattskylda veltu og útskatt hennar samkvæmt rannsókninni og taldi gjaldandi að þær fjárhæðir væru réttar. Gjaldandi kvaðst hafa stofnað til rekstrargjalda og myndi reyna að finna gögn vegna þeirra og koma þeim til skattrannsóknarstjóra ríkisins fyrir 11. febrúar 2008.

4. Í máli því, sem hér er til meðferðar, er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda samkvæmt þar tilgreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem gera ráð fyrir því að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldanda í hag, sbr. grundvallarreglu 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. áður 45. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.

Eins og fram er komið eru tölulegar niðurstöður samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á bókhaldi og skattskilum gjaldanda vegna áranna 2004, 2005 og 2006 byggðar á útgefnum sölureikningum gjaldanda umrædd ár sem hún afhenti skattrannsóknarstjóra ríkisins vegna rannsóknar málsins. Á grundvelli umræddra gagna reiknaðist skattskyld velta gjaldanda 6.863.092 kr. árið 2004, 8.156.228 kr. árið 2005 og 8.319.044 kr. árið 2006. Eru þetta þær fjárhæðir sem tilgreindar eru sem tölulegar niðurstöður rannsóknarinnar um vantalda skattskylda veltu. Af hálfu gjaldanda er viðurkennt að skattskyld velta hennar hafi numið þeim fjárhæðum sem fyrrgreind gögn bera með sér, sbr. framburð gjaldanda við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 7. febrúar 2008, og verður að skilja framburð gjaldanda þannig að hún líti svo á að í öllum tilvikum sé um að ræða tekjur af sjálfstæðri starfsemi, svo sem byggt er á í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins án þess að athugasemdir hafi komið fram af hálfu gjaldanda. Samkvæmt þessu og að virtum gögnum málsins þykir ekkert komið fram sem gefur tilefni til annars en að miða við þá fjárhæð skattskyldrar veltu sem umræddir sölureikningar bera með sér. Af hálfu gjaldanda hefur ekkert komið fram um tilefni til frekari frádráttar innskatts en reiknað er með í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, sbr. einnig kröfugerð embættisins til yfirskattanefndar. Verður því byggt á niðurstöðum rannsóknarskýrslu um þennan þátt málsins.

5. Samkvæmt framanrituðu þykir nægilega fram komið með stoð í gögnum málsins og framburði gjaldanda í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins að gjaldandi hafi vanrækt skyldur sínar, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, til að standa skil á virðisaukaskatti og virðisaukaskattsskýrslum vegna þeirra uppgjörstímabila árin 2004, 2005 og 2006 sem greinir í kröfubréfi skattrannsóknarstjóra. Af hálfu gjaldanda hefur komið fram að fjárhagserfiðleikar, sem eigi m.a. rót að rekja til gjaldþrots á árinu 2002, hafi valdið greindri vanrækslu hennar, svo og hafi gjaldandi tekið að sér að greiða skuldir sonar síns, auk þess sem hún hafi þurft að annast hann og móður sína í veikindum þeirra. Ekki telst tæk varnarástæða að fé hafi ekki verið til í rekstri gjaldanda til að standa skil á umræddum gjöldum, sbr. til hliðsjónar m.a. dóm Hæstaréttar Íslands frá 30. mars 2000 í málinu nr. 36/2000. Þá þykja aðstæður gjaldanda að öðru leyti ekki geta leyst hana undan ábyrgð vegna vanrækslu á skilum virðisaukaskatts. Verður því talið að fullnægt sé þeim huglægu refsiskilyrðum sem fram koma í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

Ákvarða ber gjaldanda, A, sekt samkvæmt framangreindum ákvæðum 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, vegna vanrækslu á skilum virðisaukaskatts og virðisaukaskattsskýrslna sem að framan greinir. Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Líta ber til þess að gjaldandi gekkst greiðlega við brotum sínum og að nokkur dráttur hefur orðið á meðferð málsins án þess að gjaldanda verði um kennt. Að þessu virtu og að teknu tilliti til álags samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 10.400.000 kr. til ríkissjóðs.

Úrskurðarorð:

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 10.400.000 kr. til ríkissjóðs.

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum