Sektir vegna vanskila og ófullnægjandi skila ársreikninga
Skila skal ársreikningi, til opinberrar birtingar, til ársreikningaskrár í seinasta lagi einum mánuði eftir aðalfund félagsins, þó ekki síður en átta mánuðum eftir lok reikningsárs, óháð því hvort félag teljist hafa verið í starfsemi eða ekki. Sé ársreikningi ekki skilað eru félög sektuð vegna vanskila.
Sektir vegna vanskila
Sé ársreikningi eða samstæðureikningi ekki skilað innan skilafrests skal ársreikningaskrá leggja á viðkomandi félag stjórnvaldssekt að fjárhæð 600.000 kr.
Óinnheimtar stjórnvaldssektir falla ekki niður þótt aðilar verði síðar við kröfum ársreikningaskrár um fullnægjandi skil ársreiknings eða samstæðureiknings.
Lækkun sekta
Ef fullnægjandi ársreikningur eða samstæðureikningur berst innan tímamarka lækkar sektin. Sekt lækkar um:
- 90% ef skilað er innan 30 daga
- 60% ef skilað er innan tveggja mánaða
- 40% ef skilað er innan þriggja mánaða
Tímamörk miðast við dagsetningu ákvörðunar um álagningu stjórnvaldssektar.
Lækkun kemur til framkvæmdar í lok hvers tímabils og samhliða því lækkar krafa í netbanka.
Þau sem skila ársreikningi snemma innan hvers tímabils geta greitt lægri sektarfjárhæð strax með millifærslu en krafa hverfur ekki úr netbanka fyrr en í lok tímabils.
Beiðni um endurákvörðun
Sækja má um til ársreikningaskrár að lækka eða fella niður stjórnvaldssekt hafi óviðráðanleg atvik sannarlega valdið því að félag hafi ekki staðið skil á ársreikningi eða samstæðureikningi til opinberrar birtingar innan gefinna tímamarka.
Skilyrði er að fullnægjandi ársreikningi eða samstæðureikningi hafi verið skilað inn.
Ástæður sem ekki er tekið tillit til við ákvörðun um niðurfellingu stjórnvaldssektar eru:
- skortur á þekkingu á gildandi lögum og reglum
- lítill eða enginn rekstur
- veikindi hjá einum af þeim sem ábyrgð ber á skilum
- slæm fjárhagsstaða í félaginu
- mistök bókara, skoðunarmanns eða endurskoðanda
- misskilningur eða samskiptaleysi milli félagsins og bókara, skoðunarmanns eða endurskoðanda félagsins
Beiðni um endurákvörðun sektar vegna óviðráðanlegra atvika skal senda ásamt rökstuðningi á netfangið skatturinn@skatturinn.is.
Sektir vegna ófullnægjandi skila
Skili félag ársreikningi eða samstæðureikningi sem uppfyllir ekki skilyrði laga um ársreikninga að mati ársreikningaskrár er félaginu tilkynnt um þá afstöðu og gefinn kostur á úrbótum og möguleika á að koma að andmælum.
Ef ekki berast fullnægjandi skýringar eða úrbætur innan 30 daga skal lögð á félagið stjórnvaldssekt að fjárhæð 600.000 kr.
Ákvörðun þessi er kæranleg til yfirskattanefndar. Kærufrestur er þrír mánuðir frá álagningu stjórnvaldssektar.
Lækkun sekta vegna vanskila eða ófullnægjandi skila
Ef fullnægjandi upplýsingar eða skýringar með ársreikningi eða samstæðureikningi berast innan tímamarka lækkar sektin. Sekt lækkar um:
- 90% ef upplýsingar eða skýringar berast innan 30 daga
- 60% ef upplýsingar eða skýringar berast innan tveggja mánaða
- 40% ef upplýsingar eða skýringar berast innan þriggja mánaða