Úrskurður nr. 11/2005
Synjun umsóknar um endurgreiðslu virðisaukaskatts
I
Embætti tollstjórans í Reykjavík hefur móttekið erindi A, dags. 13. september 2005, þar sem kærð er ákvörðun embættisins frá 8. september sl. um synjun á hluta umsóknar um endurgreiðslu virðisaukaskatts. Í kærubréfi er þess krafist að fallist verði á endurgreiðslu virðisaukaskatts af þeim ellefu náttborðum sem synjað var um endurgreiðslu á.
II
Málavextir eru á þann veg að með umsókn dags. 29. ágúst sl. sótti kærandi um endurgreiðslu virðisaukaskatts á ellefu hjúkrunarrúmum, með dýnum og gálgum, ellefu náttborðum, fimm millistykkjum á hliðargrindur á rúm, fimm statífum fyrir millistykki, einni skutlu og einum vaxpotti sem kærandi færði dvalarheimilinu B að gjöf þann 11. ágúst sl. Með ákvörðun þann 8. september sl. hafnaði embætti tollstjórans í Reykjavík endurgreiðslu virðisaukaskatts á náttborðunum með þeim rökstuðningi að ekki væri um að ræða tæki sem nýtt væri beint til viðkomandi starfsemi, þ.e. til lækninga, sjúkdómsgreininga, endurhæfingar eða í þágu sjúklinga eða vistmanna. Umsókn kæranda var samþykkt að öðru leyti.
Þann 13. september sl. barst embættinu erindi þar sem kærð var fyrrgreind ákvörðun um synjun á umsókn um endurgreiðslu virðisaukaskatts. Erindið var sent í nafni dvalarheimilisins B og undirritað af framkvæmdastjóra og hjúkrunarforstjóra þess. Í kjölfarið hafði starfsmaður embættisins samband við framkvæmdastjóra dvalarheimilisins og bent var á að kæran yrði að berast frá A, sem væri aðili að málinu. Þann 13. október sl. barst embættinu kæra í nafni A svo og yfirlýsing frá forsvarsmanni hans þar sem framkvæmdastjóra A var veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess að annast fjármál A.
III
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, skal greiða virðisaukaskatt af viðskiptum innan lands á öllum stigum. Samkvæmt þessu má sjá að meginreglan er sú að greiða skal virðisaukaskatt af vörum. Undanþágur frá meginreglum skattalaga um gjaldskyldu á almennt að skýra þröngt. Því er það mat embættis tollstjórans í Reykjavík, með vísan til fordæma fjármálaráðuneytisins, að skilyrði undanþágu virðisaukaskatts verði tvímælalaust að vera uppfyllt.
Í 7. mgr. 42. gr. virðisaukaskattslaga er kveðið á um að endurgreiða skuli virðisaukaskatt af tækjum og búnaði sem mannúðar- og líknarstofnanir fá að gjöf eða kaupa fyrir styrkfé, enda sé um að ræða vöru sem nýtt er beint til viðkomandi starfsemi. Endurgreiðsluheimild samkvæmt þessari málsgrein er bundin sömu skilyrðum og gilda um gjafir til mannúðar- og líknarstarfsemi og koma fram í b-lið 8. tölul. 1. mgr. 5. gr. tollalaga nr. 55/1987, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 797/2000, um undanþágu aðflutningsgjalda í ýmsum tilvikum.
Í 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 797/2000 er tekið fram að undanþága aðflutningsgjalda skuli taka til tækja og áhalda sem notuð eru til lækninga og sjúkdómsgreininga, tækja sem notuð eru til endurhæfingar vegna sjúkdóma og slysa og annarra tækja sem notuð eru á stofnunum sem taldar eru upp í 2. tölul. 2. mgr. við endurhæfingu eða í þágu sjúklinga og vistmanna.
Af ofangreindu er ljóst að til þess að gjöf til mannúðar- og líknarstofnunar verði undanþegin virðisaukaskatti verður hún í fyrsta lagi að uppfylla það skilyrði að falla undir þau tæki og áhöld sem talin eru upp í 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 797/2000 og í öðru lagi að vera nýtt beint til viðkomandi starfsemi, sbr. 7 mgr. 42. gr. virðisaukaskattslaga. Ekki skal fella niður virðisaukaskatt af gjöf ef hún er einungis nýtt á óbeinan hátt eða ef hún er ætlað til almennra nota.
IV
Kærandi heldur því fram í kærubréfi að ótvírætt sé að náttborðin uppfylli skilyrði 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 797/2000. Kærandi bendir á að borðin séu með útdraganlegri borðplötu sem sé nauðsynleg til þess að sjúklingur geti matast í rúmi sínu og einnig til að sitja við og borða ef sjúklingur hefur fótavist, en ekki orku til að ganga til matsalar. Kærandi bendir einnig á að í borðinu séu hirslur sem séu nauðsynlegar m.a. til þess að geyma lyf í. Þar að auki séu náttborðin nýtt sem vinnuborð fyrir starfsfólk sem leggur þar frá sér hjúkrunarvörur meðan hlynnt er að sjúklingnum.
Náttborðin sem um ræðir eru frábrugðin hefðbundnum náttborðum þar sem þau eru með útdraganlegri borðplötu. Með vísan til ofangreinds er það mat embættisins að náttborðin séu nægilega sérhæfð til þess að falla undir þau tæki og áhöld sem talin eru upp í 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 797/2000. Embætti tollstjórans í Reykjavík fellst á að náttborðin séu nýtt beint til viðkomandi starfsemi og falli þar með undir undanþáguákvæði 7. mgr. 42. gr. virðisaukaskattslaga.
Úrskurðarorð:
Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar, með vísan til 7. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, að endurgreiða beri A virðisaukaskatt, 101.060 kr., af náttborðum sem gefin voru B.
Reykjavík 18. nóvember 2005