Bindandi álit, frávísun 1/2019
Málavextir:
Fram kemur í álitsbeiðninni að hlutabréf A séu skráð með rafrænum hætti í kauphöll Nasdaq á Íslandi og hafi verið það til fjölda ára. Fyrirhugað sé að hlutabréf útgefin af A verði í framtíðinni skráð bæði í Nasdaq í Reykjavík og Euronext í Amsterdam.
Í stuttu máli fari skráning í Euronext þannig fram að þeir hluthafar sem hverju sinni vilji hafa eign sína skráða í Hollandi frekar en á Íslandi geti látið færa bréf sín þangað. Það myndi gerast með þeim hætti að hollenska verðbréfaskráningin, Euroclear Nederland, yrði að forminu til skráð fyrir bréfunum í A í samræmi við hollensk lög. Hluthafar sem vilji hafa eign sína skráða í Hollandi eigi þá hlutabréf í A í gegnum Euroclear og haldi öllum réttindum og skyldum sem hlutabréfunum fylgi skv. íslenskum lögum þrátt fyrir tilfærsluna. Hluthafinn eigi þá eign sína áfram með þeim hætti sem helst svipi til hlutfallslegs eignarhalds í óskiptri sameign alls hlutafjár í A sem skráð yrði í Hollandi. Í þessu sambandi er vísað til álits um hollenskan rétt að því er skráninguna varðar sem fylgir álitsbeiðninni.
Í álitsbeiðninni er tekið dæmi um hluthafa sem eigi 10 kr. að nafnvirði hlutafjár í A skráð í Nasdaq og sem kysi að færa hlutabréfin yfir í Euronext þar sem fyrir væru skráð hlutabréf að nafnvirði 90 kr. Þá færi hann fram á að færslan ætti sér stað í gegnum vörsluaðila hans á Íslandi. Eftir að færslan ætti sér stað, væri nafnvirði skráðra hlutabréfa í A á Euronext að nafnvirði 100 kr. og ætti hluthafinn þá bréf sem myndi samsvara 10% af þeim hlutabréfum sem skráð væru í Euronext og Euroclear færi með formlegt eignarhald á.
Samsvarandi færsla gæti átt sé stað aftur til Íslands kysi hluthafi svo. Miðað við ofangreint dæmi yrðu 10 kr. að nafnvirði hlutafjár afhentar hluthafanum inn á markaðinn á Íslandi.
Samkvæmt framansögðu yrði fullkomin samsvörun milli eignar hvers hlutahafa óháð því hvort eign hans væri skráð á íslenska markaðinum eða þeim hollenska. Milliganga Euroclear sé eingöngu formlegs eðlis og í þeim tilgangi að uppfylla skilyrði hollenskra laga við skráningu hlutafjár A í Hollandi. Í báðum kauphöllum muni hlutabréfin tilheyra einum og sama flokki hlutabréfa félagsins. Til hægðarauka við framkvæmdina væri mögulegt að ISIN einkennisnúmer hlutabréfa í A yrði mismunandi eftir því hvort bréfin væru skráð í Nasdaq eða Euronext, en það ráðist af tæknilegri útfærslu skráningar.
Samkvæmt þessu fyrirkomulagi yrði hlutaskrá A óbreytt frá því sem nú er, að því er varðar hlutabréf skráð í Nasdaq á Íslandi, en Euroclear yrði eini skráði hluthafinn að þeim bréfum sem skráð væru í Euronext.
Álitaefni:
Álitsbeiðendur fara þess á leit að ríkisskattstjóri staðfesti eftirfarandi með bindandi áliti að því er varðar lög um staðgreiðslu opinberra gjalda:
- Að við greiðslu arðs þurfi álitsbeiðandi A almennt að halda eftir staðgreiðslu skatta af þeim hluta arðsins sem tilheyrir hlutafé á markaðnum í Amsterdam í 20% hlutfalli, og
- Að ef hluthafi sem yrði með hlutabréf sín skráð í kauphöll í Amsterdam sýni fram á aðra stöðu, t.d. að forsendur að baki RSK 5.42 séu uppfylltar eða viðkomandi falli undir undanþágu 3. mgr. 2. gr. laga nr. 94/1996, þá sé A rétt að horfa fram hjá tilvist Euroclear og haga staðgreiðsluskilum í samræmi við slíka stöðu.
Telji ríkisskattstjóri í þessu sambandi að rétt sé að fara öðruvísi með arðgreiðslur en að ofan greinir, og þá eftir atvikum að heimild 9. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt eigi við um Euroclear, er óskað eftir áliti ríkisskattstjóra um það.
Að því er varðar lög um tekjuskatt er óskað eftir því að ríkisskattstjóri staðfesti eftirfarandi í bindandi áliti:
- Að færsla hlutabréfa frá Kauphöll í Reykjavík til kauphallar í Amsterdam (og öfugt) með þeim hætti sem fram kemur í atvikalýsingu teljist ekki sala hlutafjár á öðrum mörkuðum og samsvarandi kaup á hinum, sbr. 18. gr. eða 25. gr. laga um tekjuskatt, og geti því ekki myndað skattskyldar tekjur hjá viðkomandi hluthöfum.
Tekið er fram að ef ríkisskattstjóri geti ekki staðfest ofangreint í bindandi áliti sé farið fram á að embættið veiti bindandi álit á því hvernig fara eigi með viðkomandi færslur skv. lögum um tekjuskatt.
Sjónarmið álitsbeiðenda:
Álitsbeiðendur ganga út frá því að þar sem formlegt eignarhald Euroclear að hlutafé í A komi eingöngu til vegna þess hvernig skráningu hlutafjár á markað í Amsterdam er háttað eigi það formlega eignarhald ekki að ráða heimfærslu atvika til laga um tekjuskatts heldur beri að horfa til efnis máls og þá raunverulegra hluthafa. Álitsbeiðendur telja hins vegar að þeim sé ekki fært að virða Euroclear að vettugi sem millilið án staðfestingar ríkisskattstjóra.
Fram kemur að ef ofangreind nálgun sé rétt hafi það þau áhrif að Euroclear njóti ekki heimildar 9. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga um tekjuskatt til frádráttar vegna arðgreiðslna, og geti þar með ekki fengið staðgreiðslu endurgreidda frá íslenskum yfirvöldum. Hins vegar búi A við það að þurfa að ákvarða réttilega staðgreiðslu skatta vegna greiðslna til hluthafa sem fjárfest hafa á markaði í Amsterdam. Við þá ákvörðun megi vel vera að hluthafar stígi fram og upplýsi um stöðu sína sem geri A þá kleift að ákvarða staðgreiðslu réttilega án tillits til Euroclear, sú staða ætti ekki að vekja vafa.
Hitt sé og mögulegt að A hafi engar upplýsingar um raunverulega eigendur hlutabréfa sem skráð yrðu í Hollandi. Í því tilfelli væru þrír möguleikar til staðar: (i) Hluthafinn gæti verið innlendur, (ii) hluthafinn gæti verið erlendur einstaklingur og (iii) hluthafinn gæti verið erlendur lögaðili. Að því er varðar innlenda aðila gæti verið um að ræða aðila þar sem rétt væri að halda eftir 22% skatti, sbr. 3. mgr. 66. gr. og 3. mgr. 71. gr. laga um tekjuskatt, eða 0% ef þeir væru undanþegnir, sbr. 3. mgr. 2. gr. laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Varðandi erlenda hluthafa gæti verið rétt að halda eftir 20% eða 22%, sbr. 7. tölul. 70. gr. laga um tekjuskatt. Þetta valdi því að erfitt eða ómögulegt sé fyrir A að tryggja að staðgreiðsla yrði rétt framkvæmd.
Fram kemur í álitsbeiðninni að tilgangur tvískráningar sé m.a. aðgangur að erlendum mörkuðum og þar með erlendum fjárfestum. Líkur standi til þess að þeir erlendu fjárfestar sem um ræðir séu jafnan lögaðilar. Af þeim sökum sé farið fram á bindandi álit um það að í þeim tilfellum sem A hafi ekki upplýsingar um hver hluthafinn sé á hinum erlenda markaði skuli staðgreiðslan miðuð við skatthlutfall skv. b-lið 7. tölul. 70. gr. laga um tekjuskatt. Ef hærra hlutfalli a-liðar 7. tölul. 70. gr. yrði beitt hefði það í för með sér að líklegast yrði í flestum tilfellum haldið eftir of miklum skatti af greiðslum til erlendra hluthafa. Yrði að telja að það gengi gegn markmiðum 40. gr. EES samningsins um frjálst flæði fjármagns þar sem það fæli í raun í sér aðgangshindrun að hollenska markaðinum þar sem hagstæðara væri fyrir þessa erlendu fjárfesta að fjárfesta beint á íslenska markaðinum. Í ljósi þessa og til samræmis við kröfur EES samningsins að því er varðar aðgang A að erlendum fjárfestum og aðgangi þeirra að íslenska markaðinum óska álitsbeiðendur eftir því að ríkisskattstjóri staðfesti að rétt sé að halda eftir 20% skatti vegna arðgreiðslna af hlutafé á hollenska markaðinum nema A viti sannanlega að viðkomandi hluthafi falli undir annað staðgreiðsluhlutfall.
Að því er varðar færslu hlutafjár milli markaða þá hyggi Eyrir Invest á slíka færslu. Í ljósi þess sem fram hafi komið um ástæðu formlegs eignarhalds Euroclear og að rétt væri að horfa fram hjá því, ætti færslan ekki að teljast vera sala eða makaskipti hlutafjár. Af þeirri ástæðu ætti færslan, hvort sem er frá Íslandi og út eða öfugt, ekki að teljast til sölu og ætti því ekki að valda skattskyldum tekjum. Er óskað eftir því að ríkisskattstjóri staðfesti þetta.
Forsendur ríkisskattstjóra:
Samkvæmt 1. mgr. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, skal ríkisskattstjóri láta uppi bindandi álit í skattamálum enda varði beiðni um slíkt álitamál er snertir álagningu skatta og gjalda. Í athugasemdum við lagafrumvarp er síðar varð að lögum nr. 91/1998 segir:
„Gert er ráð fyrir að skattaðilar geti óskað eftir því við ríkisskattstjóra að hann gefi bindandi álit um skattaleg áhrif fyrirhugaðra ráðstafana skattaðila og þannig fengið úr því skorið fyrir fram hvernig álagning skattstjóra muni verða. Meginmarkmið frumvarpsins er að auka réttaröryggi skattaðila með því að tryggja þeim leið til að fá fyrir fram úr því skorið hvernig skattlagning verður, svo þeir geti tekið ákvarðanir og gert ráðstafanir á grundvelli þeirra upplýsinga.“
Samkvæmt framangreindu er bindandi áliti ríkisskattstjóra ætlað að veita fyrirsjáanleika um afleiðingar af fyrirhuguðum skattaréttarlegum ráðstöfunum og vera þannig ein af forsendum þess hvort skattaðili ráðist í eða láti af fyrirhuguðum ráðstöfunum. Ekki er þannig heimilt að óska eftir bindandi áliti um skattaleg áhrif ráðstafana sem hafa verið gerðar þ.m.t. um skattaréttarleg álitaefni sem e.t.v. hefur ekki verið leyst úr á fyrri árum.
Ekki verður séð að til hafi staðið að leggja bindandi álit ríkisskattstjóra til grundvallar við ákvörðun á því hvort skrá skyldi A á markað í Hollandi, enda var með tölvupósti hinn 28. maí 2019 þess óskað að álitið yrði ekki gefið út á meðan skráning stæði yfir, en hún var þá yfirvofandi og lauk 7. júní sl. Framfærðar spurningar í álitsbeiðni beinast auk þess að álitamálum er varðar færslu hlutabréfa einstakra hluthafa á milli markaða annars vegar og skyldu A til að halda eftir staðgreiðslu skatta við arðsúthlutun til hluthafa sem yrðu með bréf sín skráð á Euronext hins vegar. Verður þannig ekki annað ráðið en að álitinu sé fyrst og fremst ætlað að vera til upplýsinga fyrir einstaka hluthafa við ákvörðun á því á hvaða markað þeir skrái bréf sín og leiðbeiningar fyrir A um framkvæmd staðgreiðslu við almenna arðsúthlutun til hluthafa sem hefðu bréf sín skráð í Hollandi. Af þessu tilefni er rétt að fjalla í stuttu máli um það úrræði sem felst í bindandi álitum og sérstöku eðli þeirra, en líkt og fram kemur í frumvarpi því er varð að lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, eru þau annars eðlis en önnur upplýsingagjöf ríkisskattstjóra, en þar segir m.a.:
„Fyrir fram bindandi álit ríkisskattstjóra er viðbót við aðra upplýsingagjöf innan skattkerfisins. Núna eru gefin út ýmis álit um túlkanir á lögum og reglugerðum, auk þess sem slíkar upplýsingar koma fram í leiðbeiningarritum ríkisskattstjóra. Fyrir fram bindandi álit eru hins vegar annars eðlis en framangreind upplýsingagjöf og hafa víðtækari réttaráhrif. Af þeim sökum eru gerðar ríkari kröfur um form og efni þeirra.“
Bindandi álit eru þannig af öðrum toga en t.d. svör við almennum fyrirspurnum. Í frumvarpinu kemur fram við hvaða aðstæður álitin eru talin koma að sem bestum notum:
„Bindandi álit ríkisskattstjóra munu að líkum nýtast best í þeim tilvikum þegar álitamál lýtur að túlkun flókinna eða óljósra ákvæða laga eða reglugerða fremur en t.d. matskenndum atriðum, svo sem mati á verðmætum eigna, eða sönnunarfærslu um staðreyndir máls. Auk þess verður fyrirspurnin að snerta verulega fjárhagslega hagsmuni skattaðila.“
Ólíkt svörum við almennum fyrirspurnum er tilgangur með bindandi álitum ekki að svara spurningum er varða almenna skattframkvæmd. Endurspeglast það annars vegar í því að bindandi álit skulu lögð til grundvallar skattlagningu álitsbeiðenda, en ekki annarra, og hins vegar í nýlegum breytingum á lögunum þar sem gildistími bindandi álita var afmarkaður við fimm ár. Með fyrirliggjandi beiðni um bindandi álit er óskað staðfestingar ríkisskattstjóra á almennri skattframkvæmd, s.s. afdrætti staðgreiðslu við úthlutun arðs til hluthafa, og því ekki þess eðlis að lög nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, eigi við.
Með vísan til framangreinds er beiðni álitsbeiðanda um bindandi álit vísað frá, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.
Álitsorð:
Fyrirliggjandi beiðni uppfyllir ekki skilyrði laga nr. 91/1998, um beiðni um bindandi álit í skattamálum. Beiðninni er því vísað frá sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1998.