Ákvarðandi bréf nr. 971/2001
Ferðamálafulltrúi sveitarfélags - virðisaukaskattur
16. febrúar 2001
G-Ákv. 01-971
Ríkisskattstjóri hefur móttekið tölvupóst yðar, dags. 2. janúar 2001, þar sem þér óskið eftir upplýsingum um meðferð virðisaukaskatts vegna starfa ferðamálafulltrúa bæjarins. Meðfylgjandi voru drög að þjónustusamningi um ferðamál.
Í tölvupóstinum kemur fram að fyrirhugað sé að gera þjónustusamning við ferðamálafulltrúa bæjarins um að reka ferðamálastofu og upplýsingaþjónustu ferðamála. Samningurinn sé hugsaður þannig að ferðamálafulltrúi skili sömu þjónustu og hans deild hefur gert hingað til og til starfseminnar renni sama fjárhæð og ákveðin er í fjárhagsáætlun 2001. Með því myndi ferðamálafulltrúi sjá alfarið um starfsmannamál og launamál (starfsmenn væru starfsmenn hans en ekki starfsmenn bæjarins) og þau verkefni sem tilgreind væru í samningnum.
Til svars við fyrirspurn yðar skal eftirfarandi tekið fram:
Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint mjög víðtækt í 2. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Nær skattskyldan til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra, og til allrar vinnu og þjónustu sem ekki er sérstaklega undanþegin í 3. mgr. lagagreinarinnar. Skylda til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð hvílir á hverjum þeim sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni selur eða afhendir vöru eða verðmæti ellegar innir af hendi skattskylda vinnu eða þjónustu, sbr. 1. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988. Samkvæmt 13. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt er þjónusta ferðaskrifstofa undanþegin virðisaukaskatti. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpi til laga um virðisaukaskatt þá er í ofangreindu ákvæði einungis verið að undanþiggja þá starfsemi ferðaskrifstofa sem felst í milligöngu um ferðaþjónustu þ.e. að koma á viðskiptum milli neytenda og seljenda ferðaþjónustu en ekki aðra starfsemi sem ferðaskrifstofur kunna að hafa með höndum. Auk þess er það talið skilyrði fyrir því að starfsemi geti fallið undir ofangreinda undanþágu að viðkomandi hafi öðlast leyfi til reksturs ferðaskrifstofu skv. lögum nr. 117/1994, um skipulag ferðamála. Ekki verður séð að þeir þættir sem ferðamálafulltrúinn á að annast skv. 3. grein í þjónustusamningnum geti fallið undir nefnt undanþáguákvæði. Ekki verður heldur séð að nokkurt annað ákvæði 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 taki til tilvonandi verkefna ferðamálafulltrúans.
Því er það álit ríkisskattstjóra að sú þjónusta sem ferðamálafulltrúinn mun inna af hendi sé virðisaukaskattsskyld.
Ríkisskattstjóri