Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 990/2001

3.12.2001

Virðisaukaskattur - spilakvöld - bingó

3. desember 2001
G-Ákv. 01-990

Ríkisskattstjóri móttók þann 12. júlí 2000 fyrirspurn yðar er varðar sölu kaffihúss eða krár á aðgangseyri að spilakvöldum (félagsvist) auk sölu á bingóspjöldum.

Til svars við erindi yðar skal eftirfarandi tekið fram:

Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint mjög víðtækt í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Nær skattskyldan til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra, og til allrar vinnu og þjónustu sem ekki er sérstaklega undanþegin í 3. mgr. lagagreinarinnar. Skylda til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð hvílir á hverjum  þeim sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni selur eða afhendir vöru eða verðmæti ellegar innir af hendi skattskylda vinnu eða þjónustu, sbr. 1. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988. Samkvæmt 4. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 er starfsemi safna, svo sem bókasafna, listasafna og náttúrugripasafna, og hliðstæð menningarstarfsemi undanþegin virðisaukaskatti. Sama gildir um aðgangseyri að tónleikum, íslenskum kvikmyndum, listdanssýningum, leiksýningum og leikhúsum, enda tengist samkomur þessar ekki á neinn hátt öðru samkomuhaldi eða veitingastarfsemi. Undanþága samkvæmt þessum tölulið nær aðeins til sýninga, samkoma og annarra skemmtana sem sérstaklega eru taldar upp í lagaákvæðinu. Aðgangseyrir að samkomum þar sem spilað er félagsvist og bingó skal samkvæmt þessu bera virðisaukaskatt.

Hvað varðar sölu á bingóspjöldum er það álit ríkisskattstjóra að sala á bingóspjöldum sé undanþegin virðisaukaskatti skv. 11. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, svo fremi uppfyllt séu skilyrði laga nr. 6/1926, um happdrætti (lotterí) og hlutaveltur (tombólur).

Ríkisskattstjóri

Til baka Prenta

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum