Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1068/2007

11.1.2007

Gildistaka lækkunar á skatthlutfalli virðisaukaskatts.

11. janúar 2007 G-Ákv. 1068-07

Með tölvupósti fyrr í dag beinduð þér til ríkisskattstjóra fyrirspurn um það hvernig haga skuli tilgreiningu virðisaukaskatts á reikningum sem gefnir eru út fyrir 1. mars n.k. en varða þjónustu sem veitt verður eftir þann tíma og er af þeim toga sem tiltekin er í 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Af þessu tilefni tekur ríkisskattstjóri fram eftirfarandi:

Með lögum nr. 175/2006, sem sett voru 20. desember sl., er m.a. gerð sú breyting á 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, að virðisaukaskattur af sölu á vöru og þjónustu sem tiltekin er í ákvæðinu skal verða 7% í stað 14%. Umrædd breyting tekur gildi 1. mars 2007 samkvæmt 9. gr. laga nr. 175/2006. Seljendum vöru og þjónustu af umræddum toga ber því að innheimta og skila í ríkissjóð 14% virðisaukaskatti af sölu sem fram fer fyrir 1. mars 2007, en 7% virðisaukaskatti af sölu sem fram fer frá og með þeim degi.

Í 13. gr. laga nr. 50/1988 er kveðið á um uppgjör virðisaukaskattsskyldrar veltu. Í 1. mgr. lagagreinarinnar er mælt fyrir um að til skattskyldrar veltu á hverju uppgjörstímabili, eins og uppgjörstímabil eru afmörkuð í 24. gr., teljist heildarskattverð allra vara sem afhentar hafa verið, svo og heildarskattverð allrar skattskyldrar vinnu og þjónustu sem innt hefur verið af hendi á tímabilinu. Í 2. mgr. lagagreinarinnar er kveðið á um að ef gefinn er út reikningur vegna afhendingar telst hún hafa farið fram á útgáfudegi reiknings, enda sé reikningur gefinn út fyrir eða samtímis afhendingu.

Í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 50/1988, segir m.a. um framangreind ákvæði:

Í greininni eru ákvæði um uppgjör skattskyldrar veltu. Aðalreglan er sú að það fer eftir því hvenær afhending vörunnar eða hinnar skattskyldu þjónustu fer fram til hvaða uppgjörstímabils skattskylda veltan telst. Tímamark skattskyldu er þannig tengt afhendingu. Það er því afhendingin (afhendingarreglan eða reikningsaðferðin) en ekki innborganir (greiðsluaðferðin) sem ræður því hvenær skattskilin fara fram. Í samræmi við þetta er tekið fram í 2. mgr. að sé gefinn út reikningur vegna afhendingar telst hún hafa farið fram á þeim degi, enda sé reikningur gefinn út fyrir eða samtímis afhendingunni.

Af framangreindu er ljóst að ef gefinn er út reikningur fyrir 1. mars 2007 vegna þjónustu sem til stendur að veita eftir þann dag, þá telst þjónustan gagnvart uppgjöri virðisaukaskatts hafa verið afhent á útgáfudegi reikningsins. Seljanda ber því að innheimta og tiltaka á reikningnum virðisaukaskatt samkvæmt því skatthlutfalli sem í gildi er á útgáfudegi, þ.e. 14% virðisaukaskatt af þeirri þjónustu sem á þeim degi fellur undir 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988. Sama á við um afhendingu á vörum sem þá falla undir ákvæði 2. mgr. 14. gr.

Virðingarfyllst
Ríkisskattstjóri.

Til baka Prenta

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum